Skilmálar
Greiða skal vegna notkunar á netþjónustu samkvæmt gildandi gjaldskrá Snerpu á hverjum tíma. Breytingar á gjaldskrá og notkunarskilmálum eru tilkynntar á notendasíðum Snerpu á veraldarvefnum.
Afnot af tengingu eru bundin við einstaka persónu (notanda). Notanda er með öllu óheimilt að veita þriðja aðila aðgang að netaðgangi sínum með því að láta af hendi lykilorð aðgangsins eða opna aðganginn þannig að lykilorðs sé ekki þörf. Þetta á þó ekki við um fjölskyldumeðlimi sem hafa heimild rétthafans til að nota aðganginn. Lykilorð ber að varðveita á tryggilegan hátt.
Óheimilt er að nota netaðgang til að komast yfir upplýsingar um aðra notendur kerfisins, eða notendur annarra kerfa, aðrar en þær sem eru settar upp í opnum gagnagrunnum eins og veraldarvefnum (WWW).
Óheimilt er að trufla að nauðsynjalausu eða að skerða á nokkurn hátt afnot annarra notenda á tölvunetinu, t.d. með óeðlilegri dreifingu pósts, \"ruslpósti\", keðjubréfum eða tilraunum til að trufla samtöl á spjallrásum. Sama á við um óhæfilega mikla netumferð eða tilraunir til að finna veikleika í tölvukerfum og netum. Snerpa áskilur sér rétt til að takmarka netumferð hjá þeim notendum sem trufla notkun annarra, þ.m.t. vegna óeðlilega mikils álags eða vanrækslu á netöryggi. Snerpa áskilur sér rétt til að loka tengingum hjá notendum sem valda mjög miklu álagi á sambönd um lengri tíma.
Óheimilt er að hýsa á tengingum, heimasvæðum, dreifa á póstlistum, eða láta liggja á lausu, t.d. á vefsvæðum, efni sem aðrir eiga eða eiga höfundarrétt að nema leyfi viðkomandi liggi fyrir, efni sem brýtur gegn íslenskum lögum, og/eða hvers kyns efni er ætlað er að lítillækka fólk eða draga í dilka, hvað varðar trúarbrögð þess, kynferði, skoðanir eða litarhátt.
Notandi skal að öllu leyti virða þær umgengnisreglur sem settar eru notendum á Internetinu, þ.m.t. reglur sem gilda á öðrum hlutum þess og þær notkunarreglur sem heildarsamtök aðila að Internetinu setja. Leiki rökstuddur grunur á því að skilmálar þessir séu brotnir áskilur Snerpa sér rétt til að stöðva notkun aðgangsins um lengri eða skemmri tíma. Snerpa er á engan hátt ábyrg vegna tjóns eða annars skaða sem kann að leiða af því að notandi getur ekki notað netfang sitt eða tengingu sína.